Ísak hóf leik á varamannabekk Düsseldorf í kvöld og voru það heimamenn í Magdeburg sem tóku forystuna strax á 15. mínútu þegar Baris Atik kom boltanum í netið. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins og staðan var því 1-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Ísak kom svo inn á sem varamaður þegar um tuttugu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og hann lagði upp jöfnunarmark gestanna á 87. mínútu fyrir annan varamann Jona Niemiec, sem hafði komið inn af bekknum tveimur mínútum áður.
Niemiec var svo aftur á ferðinni í uppbótartíma þegar hann tryggði gestunum ótrúlegan endurkomusigur og þar með sæti í átta liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar á kostnað Magdeburg.