Á föstudaginn var greint frá því að Alþjóða ólympíunefndin hefði ákveðið að leyfa rússnesku og hvít-rússnesku íþróttafólki að keppa á Ólympíuleikunum í París. Áður hafði verið gefið út að hvorki rússneskt né hvít-rússneskt íþróttafólk fengi að vera með á Ólympíuleikunum vegna stríðsins í Úkraínu en Alþjóða ólympíunefndin skipti um skoðun.
Rússneska og hvít-rússneska íþróttafólkið má hins vegar ekki keppa undir fána sinnar þjóðar, ekki styðja stríðið og ekki vera meðlimur í hernum eða öryggissveitum þjóðanna. Þjóðsöngvarnir verða heldur ekki spilaðir vinni þau gullverðlaun.
Nettavisen leitaði viðbragða hjá nokkrum aðilum í norsku íþróttahreyfingunni, meðal annars Þóri, eftir þessa U-beygju Alþjóða ólympíunefndarinnar. Ekki stóð á svari hjá Selfyssingnum.
„Skoðun mín er sú sama og hefur alltaf verið. Rússland ætti aldrei að vera leyft að keppa á alþjóðlegum íþróttamótum á meðan stríðinu við Úkraínu stendur,“ sagði Þórir. „Punktur!“
Þórir þarf þó ekki að hafa áhyggjur af því mæta Rússlandi á Ólympíuleikunum í París þar sem rússneskum og hvít-rússneskum liðum verður ekki heimilt að keppa á leikunum.
Þórir og norsku stelpurnar hans töpuðu fyrir Frakklandi, 24-23, í lokaleik sínum í milliriðli II á HM í gær. Leikurinn réði því hvort liðið myndi vinna riðilinn.
Í átta liða úrslitum HM mætir Noregur Hollandi. Leikurinn fer fram á morgun. Norðmenn eiga titil að verja á HM. Undir stjórn Þóris hefur norska liðið þrisvar sinnum orðið heimsmeistari.