Handbolti

Giftu sig á Gaml­árs­dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson og Rannveig Bjarnadóttir giftu sig í Fríkirkjunni í Hafnarfirði í gær.
Gísli Þorgeir Kristjánsson og Rannveig Bjarnadóttir giftu sig í Fríkirkjunni í Hafnarfirði í gær. @rannveigbjarna, @gislithorgeir

Landsliðsmaðurinn og handboltamaður ársins 2025, Gísli Þorgeir Kristjánsson, gerði síðasta dag ársins 2025 einstaklega eftirminnilegan.

Gísli Þorgeir spilar sem atvinnumaður hjá þýska handboltaliðinu Magdeburg og býr því í austurhluta Þýskalands dagsdaglega. Hann er kominn til Íslands þar sem undirbúningur handboltalandsliðsins fyrir EM hefst á morgun.

Hann og unnusta hans ákváðu að nýta tækifærið og gifta sig óvænt án þess að henda í stórt brúðkaup. Gísli hafði beðið hennar í Berlín rétt rúmum mánuði fyrr eða 30. nóvember 2025.

Ný eiginkona Gísla, Rannveig Bjarnadóttir, sagði frá þessu á samfélagsmiðlum.

„Og allt í einu varð gamlárskvöld minn uppáhalds dagur. Lítil athöfn bara fyrir okkur en undirbúið ykkur fyrir partý 2027,“ skrifaði Rannveig og birti myndir af þeim tveimur einum nýgiftum fyrir utan Fríkirkjuna í Hafnarfirði.

Gísli og Rannveig eru bæði úr Hafnarfirðinum, voru saman í Versló og hafa verið par í átta ár. Þau búa nú í Magdeburg þar sem hann hefur spilað við góðan orðstír síðastliðin fimm ár og hún leggur stund á meistaranám.

Þetta þýðir jafnframt að síðustu tveir Íþróttamenn ársins giftu sér á milli jóla og nýárs í ár.

Knattspyrnukonan Glódís Perla Viggsdóttir giftist nefnilega Kristófer Eggertssyni á þriðja degi jóla.

Glódís er núverandi íþróttamaður ársins en Gísli fékk sömu verðlaun árið áður.

Gísli kórónaði frábært ár með því að gifta sig en hann vann Meistaradeildina í vor þar sem hann var kosinn mikilvægasti leikmaðurinn og þá er hann með Magdeburg á toppi þýsku deildarinnar þegar hún fer í smá frí vegna Evrópumótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×