Ísland féll naumlega úr leik og færðist yfir í Forsetabikarinn eftir jafntefli við Angóla í lokaleik riðlakeppninnar. Angóla fór á móti í milliriðil þar sem þær angólsku unnu tvo leiki. Mikið svekkelsi var með úrslitin og hefur íslenska liðið sýnt hingað til að það sé sterkasta liðið í Forsetabikarnum.
„Þetta er aðeins öðruvísi. Við erum í aðeins öðruvísi hlutverki en í riðlinum. Þar vorum við að mæta andstæðingum sem eru fyrirfram mun sterkari,“
„Eftir á að hyggja og eftir það hvernig leikurinn við Angóla spilaðist, þá hefðum við viljað vera í því áfram að spila við þessi lið sem eru þarna fyrir ofan okkur. Við hefðum mætt liðum eins og Suður-Kóreu og Austurríki, sem Angóla vann. Þar vildum við vera en af því að þetta fór svona erum við ánægð með hvernig gert þetta í framhaldinu og staðið okkur í þessu verkefni.“ segir Arnar.
Markmiðið verið skýrt frá upphafi
Á morgun er úrslitaleikur við Kongó sem vann hinn riðilinn í Forsetabikarnum. Liðið lagði þar Íran, Kasakstan og Síle. Arnar segir markmiðin skýr fyrir morgundaginn.
„Mér líst mjög vel á það. Ég hef sagt alveg frá upphafi síðan við fórum í þessa keppni að við ætlum að vinna hana. Það er einn leikur eftir og nú er undirbúningur fyrir hann hafinn. Það er allt á fullu og við ætlum okkur að vinna þennan leik á morgun.“
Arnar segir Kongóliðið þá vera slakara en Angóla, sem Ísland gerði jafntefli við í riðlakeppninni.
„Það sem við erum búnir að sjá er töluverður munur á þessum liðum. Angóla-liðið er töluvert sterkara. Þessi leikur á morgun snýst fyrst og fremst, eins og hinir leikirnir í þessari keppni, um okkar frammistöðu, okkar leik og að við gerum okkar vel. Þá eigum við að vinna þennan leik á morgun.“ segir Arnar.
Leikur Íslands og Kongó hefst klukkan 19:30 á morgun og verður lýst beint á Vísi.