Staðurinn var opnaður á Akureyri árið 2013 í framhaldi af opnun höfuðvígisins á Höfðatorgi í Reykjavík árið 2010. Jóhannes Ásbjörnsson og Sigmar Vilhjálmsson, þá best þekktir sem Simmi og Jói úr Idolinu, voru eigendur veitingastaðarins sem í dag er í eigu Gleðipinna. Kaupfélag Skagfirðinga er núverandi eigandi Gleðipinna og er forstjórinn María Rún Hafliðadóttir.
Jóhann Stefánsson, framkvæmdastjóri Hamborgafabrikkunnar á Akureyri, segir í samtali við Akureyri.net að ákvörðunin hafi verið tekin í september. Starfsemin hafi verið farsæl í tíu ár og fyrir það séu þau þakklát.
Staðurinn er á jarðhæð KEA hótelsins og verður opinn til og með Þorláksmessu. Á Facebook-síðu staðarins kemur fram að 30 prósenta afsláttur sé á matseðli á meðan birgðir endast.