Þetta tilkynnti Katrín á upplýsingafundi almannavarna í dag. Katrín sagði að áfram verði töluverð óvissa uppi um búsetu í Grindavík næstu vikurnar og því verði lagt til að húsnæðisstyrkurinn yrði framlengdur.
Ríkisstjórnin kynnti sérstakan stuðning við Grindvíkinga þann 24. nóvember síðastliðinn. Aðgerðirnar, sem runnu auðveldlega í gegnum Alþingi, fela meðal annars í sér tímabundinn fjárhagslegan stuðning vegna aukins húsnæðiskostnaðar Grindvíkinga.
Þá sagði að stuðningurinn yrði tímabundinn til þriggja mánaða og endurskoðaður fyrir lok þess tímabils með tilliti til þarfar á áframhaldandi stuðningi. Veittur yrði mánaðarlegur húsnæðisstuðningur sem færi stighækkandi eftir fjölda heimilisfólks gegn framvísun skráðs leigusamnings.
Gert væri ráð fyrir að heildarkostnaður við slíkt stuðningskerfi gæti numið um 220 til 240 milljónum króna á mánuði.
Bríet keypt áttatíu íbúðir
Þá var hluti aðgerðanna kaup leigufélaganna Bríetar, sem er í eigu ríkisins, og Bjargs, sem er í eigu stéttarfélaga, á íbúðum sem leigðar yrðu Grindvíkingum.
Katrín tilkynnti í dag að Bríet hefði þegar keypt áttatíu íbúðir og að unnt verði að flytja inn í sjötíu þeirra fyrir jól. Þá hafi Bjarg keypt sjö íbúðir.
Húsnæðismálin helsta áhyggjuefnið
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur sagði á upplýsingafundinum að Grindvíkingum liði misvel vegna þeirrar stöðu sem nú er uppi. Húsnæðismálin væru helsta áhyggjuefni þeirra og því fagni hann því að húsnæðisstuðningurinn verði framlengdur. Of margar grindvískar fjölskyldur búi nú í húsnæði sem henti þörfum þeirra illa.
Þá sagði hann gott að stuðningur verði í gildi út veturinn þar sem gert sé ráð fyrir því að skólastarf verði ekki hafið á ný í Grindavík á þessu skólaári. Því muni ekki þurfa að flytja börn úr bænum og í skóla annars staðar.
Fundinn í heild sinni má sjá í spilaranum hér að neðan: