Fótbolti

Manchester City heims­meistari fé­lags­liða

Ágúst Orri Arnarson skrifar
City menn fagna meðan Kyle Walker kyssir bikarinn.
City menn fagna meðan Kyle Walker kyssir bikarinn. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images)

Manchester City er heimsmeistari félagsliða eftir 4-0 sigur gegn Fluminense frá Brasilíu í úrslitaleik mótsins.

Julian Alvarez skoraði fyrsta markið innan við mínútu eftir að leikurinn byrjaði. Markið kom eftir góðan sprett Nathan Aké upp vinstri vænginn, skot hans hafnaði í stönginni, Alvarez var fljótur að bregðast við, beygði sig niður og beindi boltanum með bringunni inn í markið. 

Brasilíumaðurinn Nino setti boltann svo óvart í eigið net á 27. mínútu þegar hann reyndi að hreinsa fyrirgjöf Phil Foden frá marki. Englendingurinn Foden skoraði svo sjálfur þriðja mark leiksins, eftir góðan undirbúning Julian Alvarez. 

Alvarez fullkomnaði svo frábæra frammistöðu sína þegar hann setti fjórða og síðasta mark leiksins á 88. mínútu. 

Bæði lið voru að taka þátt í mótinu í fyrsta sinn, en það hefur verið haldið alls 19 sinnum frá árinu 2000. Manchester City tryggði sér sæti í úrslitum mótsins með 3-0 sigri gegn Urawa Reds frá Japan, en Fluminese sigraði egypska liðið Al Ahly með tveimur mörkum gegn engu í sínum undanúrslitaleik.

HM félagsliða fór fram í síðasta sinn í núverandi mynd í ár, næsta mót verður haldið í júní árið 2025 og þar munu 32 lið taka þátt í stað aðeins 7.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×