Íbúar Grindavíkur máttu gista í bænum yfir hátíðarnar og komast þeir inn og út úr bænum allan sólarhringinn. Þetta fyrirkomulag heldur áfram nú eftir hátíðarnar, að minnsta kosti þar til nýtt hættumatskort Veðurstofu Íslands verður gefið út eftir þrjá daga, föstudaginn 5. janúar.
Flugeldar í Grindavík
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir hátíðarnar hafa gengið vel í Grindavík.
„Ég held það hafi verið sofið í 23 húsum á gamlárskvöld og aðfaranótt nýársdag. Allt gekk vel, skotið upp flugeldum og enginn vandræðagangur,“ segir Úlfar.
Úlfar ítrekar að hann ráðleggi Grindvíkingum frá því að dvelja í bænum þessa dagana. Landris sé stöðugt og eldgos gæti hafist nálægt bænum með skömmum fyrirvara. Íbúar séu því í bænum á eigin ábyrgð.
„Eins og ég hef sagt og sagði um daginn, þá hvet ég fólk ekki til þess að gista í bænum en íbúar eru þarna á eigin ábyrgð. Mínir starfsmenn, ég treysti þeim til að vera þarna. En það getur breyst hratt. Við teljum okkur hafa þokkalegt svigrúm til að bregðast við ef það fer að gjósa þarna á svipuðum slóðum. En bara ógerningur að segja hvað framtíðin ber í skauti sér,“ segir Úlfar.
Gætu byrjað að reisa varnargarða eftir hádegi
Um hádegi í dag rennur út frestur jarðeigenda og hagsmunaaðila til þess að gera athugasemdir við byggingu varnargarða norðan við Grindavík. Gert er ráð fyrir því að varnargarðarnir verði samtals sjö kílómetrar að lengd og að hann þveri Grindavíkurveg og Suðurstrandarveg. Garðarnir verða byggðir í tveimur áföngum. Vinna við fyrri áfangann hefst sem fyrst en stefnt er að vinna við seinni áfangann hefjist í vor eða sumar.