Hilmar Smári og félagar hans í Bremerhaven heimsóttu Düsseldorf í Pro A deildinni þar sem heimamenn í Düsseldorf höfðu yfirhöndina í upphafi leiks. Hilmar og félagar voru sjö stigum undir að loknum fyrsta leikhluta, en voru komnir með fjögurra stiga forskot í þegar flautað var til hálfleiks, staðan 43-47.
Gestirnir í Bremerhaven juku svo forskot sitt umtalsvert í þriðja leikhluta og leiddu með 16 stigum þegar komið var að lokaleikhlutanum.
Þar tóku heimamenn þó völdin fyrstu mínúturnar og skoruðu 15 stig gegn aðeins fimm stigum Hilmars og félaga og voru því búnir að minnka muninn niður í sex stig þegar enn voru fjórar mínútur eftir af leiknum. Hilmar og félagar héldu þó út og unnu að lokum góðan ellefu stiga sigur, 75-86.
Þá unnu Hilmar Pétursson og félagar hans í Münster öruggan 22 stiga sigur gegn Nürnberger á sama tíma, 62-84. Hilmar og félagar leiddu frá upphafi til enda og var sigur þeirra aldrei í hættu.