Króatíska handboltasambandið hefur beðið króatíska fjölmiðla um að hætta að kalla þá kúreka.
„Í sambandi við fjölmargar fyrirsagnir og greinar í fjölmiðlum sem nota gælunafnið kúrekar fyrir króatíska karlalandsliðið í handbolta þá viljum við fyrir hönd landsliðsmannanna okkar biðja ykkur um að hætta því. Núverandi leikmenn liðsins voru ekki hluti af kynslóðinni sem bjó til þetta gælunafn á sínum tíma,“ segir í yfirlýsingu frá króatíska sambandinu.
Kúrekanafnið kom til árið 2009 þegar Króatar spiluðu á heimavelli á heimsmeistaramótinu.
Goðsögnin Ivano Balic gaf liðinu nafnið. Hann lék með landsliðinu frá 2001 til 2012 og var kosinn besti leikmaðurinn á fjórum stórmótum (EM 2004, HM 2005, EM 2006 og HM 2007). Balic þykir vera einn besti handboltamaður sögunnar.
Króatar töpuðu úrslitaleiknum á HM 2009 og fengu því silfur. Þeir hafa unnið til verðlauna á fimm af síðustu sjö Evrópumótum (þrjú silfur, tvö brons) en hafa aldrei orðið Evrópumeistarar.
Króatía varð heimsmeistari í eina skiptið árið 2003 og vann Ólympíugull bæði 1996 og 2004.