Fyrir jól hafði dýralæknir samband við Dýrahjálp Íslands og sagði að hún hefði fengið beiðni um að aflífa fleiri en tuttugu naggrísi sem fundust í hesthúsi.
„Og hún hafði samband við okkur til að athuga hvort við hefðum tök á að taka við þeim frekar og í kjölfarið var sú sem átti þá mjög hamingjusöm með að hægt væri að koma þeim annað í stað þess að aflífa þá,“ Sonja Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Dýrahjálpar Íslands.
Dýrin hafi verið í góðu ásigkomulagi og við góða heilsu enda segir Sonja að hugsað hafi verið vel um þá.

Sjálfboðaliðar hjá Dýrahjálp fjölmenntu á þremur bílum með fleiri búr og sóttu naggrísina. Í ljós kom að þeir voru 32 talsins og höfðu dvalið í óupphituðu húsi.
„Naggrísir eru hitabeltisdýr og vilja frekar vera í mjög hlýju umhverfi. Koma frá Suður-Ameríku og líður mjög illa í kulda.“
Hver og einn naggrís var vigtaður. kyngreindur og klærnar klipptar. Þeim var öllum komið fyrir á fósturheimilum og leita nú að framtíðarheimili.

„Ég hef átt núna fimm naggrísi og þetta eru yndisleg dýr, það er eins og bíó að fylgjast með þeim. Þeir eru ekkert smá fyndnir, sagði Aron Ingi Smárason,“ sjálfboðaliði hjá Dýrahjálp Íslands.
Þeir séu stórskemmtilegir en þarfnist pláss og tíma. Dýrin lifa í fimm til sjö ár. Eru hópdýr og líður best nokkrum saman.

Harpa er ein þeirra sem hefur skotið skjólshúsi yfir dýr og tekið þau í fóstur þar til framtíðarheimili finnst.
„Ég hef verið neyðarfóstur aðallega og svo ákvað ég að taka við þessum grísum núna, þær eru svolítið mikið skemmtilegar,“ segir Harpa Valdís Þorkelsdóttir, með naggrísi í fóstri.

Á vefsíðu Dýrahjálpar má finna yfirlit yfir þau dýr sem eru í heimilisleit og hvetja Aron og Sonja þau sem eru áhugasöm um að hafa samband.

Myndir þú mæla með þessu?
„Algjörlega, ef þú ert með plássið og finnst lítil dýr skemmtileg sem gefa alls konar hljóð frá sér. Klárlega.“