„Það hefur bara gengið mjög vel í dag,“ sagði Hafþór Örn Kristófersson, hjá björgunarsveitinni Suðurnes, í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Hann segir gosið það versta sem hann hafi séð sem björgunarsveitarmaður, einfaldlega vegna nálægðar við byggð. Hin eldgosin hafi verið mun meiri „túristagos“.
Björgunarsveitarfólk hafi þurft að stöðva för fólks sem hafi ætlað sér að sjá gosið.
„En sem betur fer ekki mikið. Þannig að fólk virðist kannski aðeins vera að hlusta á okkur þegar við biðjum það að koma ekki hingað. Bæði er þetta löng leið að labba og kalt, og svo er þetta bara hættusvæði. Leyfið okkur að vinna okkar vinna. Við erum að meta aðstæður og mikið sprungusvæði hérna,“ sagði Hafþór.
Björgunarsveitir verða með mannaðar lokanir á svæðinu í nótt, og passað verður upp á að fólk fari ekki inn á hið lokaða svæði.