Sport

Fagnaði sigri á meðan kærastinn lá slasaður á sjúkra­húsi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikaela Shiffrin kyssir Aleksander Aamodt Kilde áður en hún dreif sig af stað til Austurríkis þar sem hún vann síðan mótið í gærkvöldi.
Mikaela Shiffrin kyssir Aleksander Aamodt Kilde áður en hún dreif sig af stað til Austurríkis þar sem hún vann síðan mótið í gærkvöldi. @mikaelashiffrin

Bandaríska skíðakonan Mikaela Shiffrin sýndi mikinn andlegan styrk með því að vinna svigmót í Austurríki í gærkvöldi.

Það er ekkert óvanalegt að Shiffrin sé að vinna mót enda sú sigursælasta frá upphafi en það voru kringumstæðurnar sem gerðu sigurinn enn merkilegri.

Shiffrin var þarna að vinna sitt 94. heimsbikarsmót á ferlinum sem er met hjá bæði körlum og konum.

Kærasti hennar, Aleksander Aamodt Kilde, hafði nefnilega slasast illa í skíðabrekku aðeins nokkrum dögum fyrr og lá illa slasaður á sjúkrahúsi.

Kilde féll illa í brunkeppni í Sviss og var fluttur í burtu í þyrlu. Hann fór meðal annars úr axlarlið, fékk stóran skurð á kálfa og marðist í andliti.

Shiffrin heimsótti Kilde á sjúkrahúsið í Bern í Sviss en fór síðan til Flachau í Austurríki þar sem svigmótið fór fram.

„Ég vonast til þess að geta hringt í ‚Aleks' áður en hann fer að sofa,“ sagði Mikaela Shiffrin við NRK þegar hún yfirgaf viðtalið eftir sigurinn. Hún átti erfitt með sér í verðlaunaafhendingunni og gat ekki haldið aftur af tárunum.

Þetta var í 81. sinn sem hún kemst á verðlaunapall í svigi á heimsbikarmóti.

„Það er svo erfitt að halda einbeitingu þegar hjartað þitt er allt annars staðar. Það var samt hápunktur kvöldsins að ná að tala aðeins við ‚Aleks', skrifaði Shiffrin síðan á samfélagsmiðla sína eftir keppnina.

Eftir sigurinn er Shiffrin bæði efst í svigi og samanlögðu í heimsbikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×