Enski boltinn

Óttast um öryggi sitt vegna hatursorðræðu Bartons

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eni Aluko hefur haslað sér völl sem álitsgjafi eftir að fótboltaferlinum lauk.
Eni Aluko hefur haslað sér völl sem álitsgjafi eftir að fótboltaferlinum lauk. getty/James Baylis

Eni Aluko, fyrrverandi landsliðskona Englands í fótbolta, segist vera hrædd eftir að hafa fengið yfir sig svívirðingar á samfélagsmiðlum.

Joey Barton, fyrrverandi leikmaður Manchester City og Newcastle United, hefur farið mikinn að undanförnu í krossferð sinni gegn konum sem fjalla um karlafótbolta í sjónvarpi. Hann líkti meðal annars Aluko og öðrum álitsgjafa, Lucy Ward, við raðmorðingjana Fred og Rose West.

Á Instagram sagðist Aluko hreinlega óttast um öryggi eftir svívirðingarnar frá Barton og fleirum.

„Ég er óttasleginn. Ég er mannleg og viðurkenni fúslega að ég hef verið hrædd í vikunni,“ sagði Aluko.

„Ég hef verið raunverulega hrædd. Ég yfirgaf ekki heimili mitt fyrr en á föstudaginn og núna er ég erlendis. Það er mjög mikilvægt að segja að svívirðingar á netinu hafa áhrif á öryggi þitt, hvernig þér líður og hversu örugga þú upplifir þig.“

Aluko segist ekki vera að biðja um vorkunn, hún hafi bara verið raunverulega hrædd um öryggi sitt og að einhver myndi gera henni eitthvað.

„Ég segi þetta svo fólk skilji hversu mikið áhrif hatursorðræða, rasismi og kvenfyrirlitning hefur á okkur konur í bransanum,“ sagði Aluko.

„Þeir eru að búa til umhverfi þar sem fólk vill ekki mæta í vinnuna, yfirgefa heimili sitt og finnst því ógnað. Augljóslega hefur þetta líka mikil áhrif á andlega heilsu.“

Aluko lagði skóna á hilluna fyrir fjórum árum. Hún lék yfir hundrað landsleiki fyrir England og spilaði meðal annars með Chelsea og Juventus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×