„Þetta er eitthvert sterkasta og áhrifamesta leikverk sem ég hef séð í mörg ár,“ skrifar Runólfur á Facebook-síðu sína. En verkið verður frumsýnt 19. janúar, eftir tvo daga, þannig að Runólfur hefur séð rennsli.
Allnokkur umræða hefur orðið um uppfærsluna sem hefur verið til æfinga; leikrit Tyrfings sem upphaflega hét Kvöldstund með Heiðari snyrti. Tyrfingur tók sig hins vegar til og breytti titli verksins.
Sér í lagi hefur Drífa Snædal talskona Stígamóta látið sýningu verksins til sín taka en hún fullyrðir að með uppsetningunni sé ekki verið að virða „óskir brotaþola [Heiðars] eða alvarleika afleiðinga á þolendur“ heldur hafi Borgarleikhúsið ákveðið að setja kynferðisbrotamann í kastljósið „af því að listin má allt – líka viðhalda þjáningum brotaþola kynferðisofbeldis.“
Runólfur er ósammála þessu og segir það hörmulegt ef verkið „yrði fórnarlamb þöggunar og ritskoðunar. Lifi listin, lifi ástin og lifi fegurðin!“ segir Runólfur og bætir við: „Síðan er Hilmir Snær Guðnason stórkostlegur í hlutverki Heiðars snyrtis. Takk Borgarleikhús!“
Runólfur deilir færslu Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur leikkonu sem greinir frá því að hún hafi séð æfingu á verkinu og orðið djúpt snortin.
„Vá, hvað hann Tyrfingur er vogað og magnað leikskáld, það er ekki hægt annað en að elska hann því honum þykir svo vænt um manneskjurnar, okkur sem erum svo breysk, gölluð og smá.“
Steinunn segir sýninguna brilliant og góðan þjóðarspegil. „Hreinskilið verk sem fjallar um fegurðina og ástina sem er það allra verðmætasta og hvað það er sárt að lifa í þessu óblíða landi þar sem óttaslegin dómharkan ríkir, aftengdur, utangátta og einn.“