Fótbolti

Elísa­bet önnur tveggja sem þykja lík­legastar til að taka við Chelsea

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elísabet Gunnarsdóttir er líkleg til að taka við Englandsmeisturum Chelsea.
Elísabet Gunnarsdóttir er líkleg til að taka við Englandsmeisturum Chelsea. Mynd/@_OBOSDamallsv

Elísabet Gunnarsdóttir er nú önnur tveggja kvenna sem þykja líklegastar til að taka við enska stórliðinu Chelsea þegar Emma Hayes lætur af störfum að yfirstandandi tímabili loknu.

Áður hafði verið fjallað um það að Elísabet væri ein þriggja sem þætti líklegust til að taka við ensku meisturunum. Laura Harvey, þjálfari Seattle Reign, og Casey Stoney, þjálfari San Diego Wave, voru einnig nefndar til sögunnar.

Nú greinir The Times hins vegar frá því að Stoney hafi ekki áhuga á starfinu. Stoney, sem er fyrrverandi leikmaður og spilandi þjálfari Chelsea, er sögð vilja einbeita sér að starfi sínu hjá San Diego Wave og hafi því ekki áhuga á því að taka við Englandsmeisturunum.

Ef marka má allar þessar fréttir þýðir það að Elísabet Gunnarsdóttir og Laura Harvey eru einar eftir á blaði yfir eftirmenn Emmu Hayes sem nýr knattspyrnustjóri Chelsea.

Emma Hayes hefur stýrt Chelsea frá árinu 2012 og hefur gengi liðsins undir hennar stjórn verið afar gott. Sex sinnum hefur liðið orðið Englandsmeistari undir hennar stjórn og eru það einu sex Englandsmeistaratitlar liðsins. Þá hefur Hayes einnig unnið FA-bikarinn fimm sinnum með Chelsea og enska deildarbikarinn tvisvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×