Þeir sem vildu vita hvort Kansas City Chiefs liðið gæti unnið á útivelli í úrslitakeppninni fengu svar við því í nótt. Höfðingjarnir hans Patrick Mahomes komust þá áfram í úrslitaleik Ameríkudeildarinnar á móti Baltimore Ravens.
Í úrslitaleik Þjóðardeildarinna mætast síðan San Francisco 49ers og Detroit Lions.
Þetta var fyrsti útileikur Chiefs í úrslitakeppni síðan Mahomes tók við sem leikstjórnandi en hann og félagar náðu enn á ný að vinna nauman sigur á Buffalo Bills, 27-24, í miklum spennuleik. Chiefs hefur þar með slegið út Bills liðið þrisvar sinnum á síðustu fjórum árum og er ennfremur komið í úrslitaleik Ameríkudeildarinnar sjötta árið í röð.
Chiefs liðið er ríkjandi NFL-meistari en lið hefur ekki varið titilinn síðan New England Patriots gerði það 2003 og 2004.
Bills fékk tækifæri undir lokin til að koma leiknum í framlengingu en vallarmarkstilraun Tyler Bass af 44 jarda færi fór framhjá.
Samvinna Mahomes og Travis Kelce var einn á ný til mikillar fyrirmyndar en Kelce skoraði tvö snertimörk í leiknum. Með því slógu þeir félagar Mahomes og Kelce met Tom Brady og Rob Gronkowski yfir flestar snertimarkssendingar í sögu úrslitakeppninnar milli leikstjórnanda og liðsfélaga. Þessar voru númer 15 og 16.
Detriot Lions liðið hélt áfram ævintýri sínu en fyrir viku unnu þeir sinn fyrsta sigur í úrslitakeppni í 32 ár og í gær komust Ljónin í úrslitaleik Þjóðardeildarinnar eftir 31-23 sigur á Tampa Bay Buccaneers.
Detriot hefur unnið titilinn í ameríska fótboltanum en engan þeirra eftir 1967 þegar fyrsti Super Bowl leikurinn fór fram. Lions liðið er aðeins eitt af fjórum félögum í deildinni sem hefur aldrei komist í Super Bowl en liðið er nú bara einum sigri frá því.
San Francisco 49ers vann 24-21 endurkomusigur á Green Bay Packers á laugardaginn en áður hafði Baltimore Ravens unnið 34-10 stórsigur á Houston Texans. Christian McCaffrey tryggði 49ers sigurinn með snertimarki í lokin.
Úrslitaleikir deildanna fara fram næstkomandi sunnudag. Leikur Baltimore Ravens og Kansas City Chiefs hefst klukkan 20.00 að íslenskum tíma og leikur San Francisco 49ers og Detroit Lions hefst klukkan 23.40.