Innlent

Fékk níu fíkni­efna­sendingar á ör­fáum mánuðum

Jón Þór Stefánsson skrifar
Tollgæslan fann efnin í póstmiðstöð í Reykjavík.
Tollgæslan fann efnin í póstmiðstöð í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur fengið sextíu daga fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur, skilorðsbundin til tveggja ára, fyrir fíkniefnabrot. Á nokkrum mánuðum árið 2021 fékk hann níu sendingar erlendis frá sem innihéldu ýmis fíkniefni sem tollverðir fundu í póstmiðstöð í Reykjavík.

Frá maímánuði til ágústmánaðar 2021 fékk maðurinn átta fíkniefnasendingar sem innihéldu í heildina 109 stykki af fíkniefninu 2C-B, fjörutíu stykki af lyfinu Modafinil, þrjátíu stykki af LSD, fimm millilítra af kannabisblönduðum vökva, og tíu stykki af kannabisblönduðu efni. Maðurinn játaði sök í öllum þeim málum.

Maðurinn neitaði hins vegar sök varðandi níunda ákæruliðinn, en þar var honum gefið að sök að flytja inn 1,6 kíló af dímetýltryptamíni, eða DMT. Hann vildi meina að ekki væri um sjálft efnið að ræða, heldur efni sem væri hægt að gera DMT úr.

Samkvæmt framburði starfsmanns rannsóknarstofu var styrkleiki efnisins einungis 2,3 prósent. Því var maðurinn sakfelldur fyrir að flytja inn 2,3 prósent af DMT-efninu sem honum var gefið að sök að flytja inn.

Líkt og áður segir hlaut maðurinn sextíu daga skilorðsbundin dóm, og þá ákvað dómurinn að fíkniefnin yrðu gerð upptæk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×