Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Tíska hefur alltaf verið eitt af mínum uppáhalds áhugamálum. Með henni er svo mikil sköpun og frelsi sem mér finnst skemmtilegt við hana. Það eru engar reglur og maður getur verið eins og manni líður hverju sinni.

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Úff, á ég svo margar uppáhalds flíkur. Ætli það sé ekki á þessu augnabliki svartur jakki frá Tierry Mugler sem ég keypti í London. Hann er uppáhalds því hann get ég notað við öll tækifæri það sem eftir lifir án þess að fá leið á honum.
Og svo er það brúna kápan mín frá Charlotte Simone sem ég fékk í jólagjöf frá syni mínum og barnsföður.

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Það er mjög mismunandi og fer eftir því í hvernig verkefni ég er í hverju sinni. Á vorin og sumrin á ég það til að gefa mér meiri tíma á morgnana til að klæða mig út í daginn.

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Eins og Svenni vinur minn segir: „Marc Jacobs eleganze“.

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Nei ekki svo mikið. Ég hef alltaf verið með svipaðan stíl frá því ég var ung. En í dag kaupi ég mér kannski meira af merkjavöru inn á milli og blanda saman við ódýrari merki.

Nýturðu þess að klæða þig upp?
Já, ég elska að vakna snemma og gefa mér tíma til að klæða mig og hafa mig til alla daga.
Það er mikil núvitund fyrir mig að eiga þennan tíma með mér á morgnana. Ég set mig alveg í fyrsta sæti og nýt þess mjög.

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Alls staðar að. Ég er ennþá að kaupa mér Vogue blöð og fletta þeim. Ég elska að fletta blöðum og horfa á tískusýningar.

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Nei engin.
Tíska er frelsi fyrir hvern og einn.

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Vivienne Westwood jakki sem ég keypti mér í KronKron á sínum tíma. Hann passaði við allt og var svo breytilegur. Ég elskaði þennan jakka mikið.
Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Bara að fara sína eigin leið og ekki spá í hvað öðrum finnst. Þetta er allt spurning um að fá að vera maður sjálfur og vera í senn öruggur, líða vel í eigin skinni og vera stoltur af sjálfum sér alla daga.

Hér má fylgjast með Tinnu á samfélagsmiðlinum Instagram.