Handbolti

Grótta náði í stig í Eyjum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elmar Erlingsson var markahæstur hjá ÍBV í dag.
Elmar Erlingsson var markahæstur hjá ÍBV í dag. Vísir/Anton Brink

Grótta gerði góða ferð til Vestmannaeyja í dag því liðið gerði jafntefli við ÍBV í Olís-deild karla í handknattleik. Þá vann Stjarnan sigur á KA í Garðabæ.

Fyrir leikinn í kvöld var ÍBV í 3. sæti Olís-deildarinnar en liðið tapaði með tíu mörkum fyrir Haukum um helgina. Grótta var í 8. sæti og í baráttu um sæti í úrslitakeppninni.

Grótta komst í 6-1 í upphafi leiks áður en Eyjamönn rönkuðu við sér og náðu að minnka muninn í 8-7. Staðan í hálfleik var 19-18 Gróttu í vil sem hafði frumkvæðið allan fyrri hálfleikinn.

ÍBV náði frumkvæðinu í upphafi síðari hálfleiks en munurinn á liðunum varð aldrei meiri en tvö mörk. Í stöðunni 27-25 fyrir ÍBV náði Grótta hins vegar 5-1 kafla og komst í 30-28 með aðeins fimm mínútur eftr af leiknum.

Eyjamenn jöfnuðu í 30-30 og í 31-31 þegar þrjár mínútur voru eftir. Hvorugu liði tókst að skora eftir það og urðu að sætta sig við skiptan hlut. Lokatölur 31-31. Elmar Erlingsson skoraði 6 mörk fyrir ÍBV og Dagur Arnarsson 5 og þá varði Pavel Miskovich 10 skot í markinu. Hjá Gróttu voru Ari Pétur Eiríksson, Ágúst Emil Grétarsson og Antoine Óskar Pantano markahæstir með 4 mörk og Einar Baldvin Baldvinsson varði 10 skot í markinu.

Í Garðabæ tók Stjarnan á móti Gróttu. Stjarnan var með þrettán stig í 7. sæti fyrir leikinn en KA með tíu stig í 9. sæti. Stjarnan tók frumkvæðið í upphafi leiks og leiddi 18-14 í hálfleik. Í síðari hálfleiknum tókst gestunum að minnka muninn í eitt mark en þá juku Garðbæingar forskotið á nýjan leik.

Þegar Pétur Árni Hauksson kom Stjörnunni í 31-28 með tæpar þrjár mínútur eftir var björninn unninn. Lokatölur 33-28 og Stjarnan lyftir sér þar með uppfyrir Hauka í töflunni.

Pétur Árni Hauksson var markahæstur hjá Stjörnunni með 6 mörk og Adam Thorstensen varði 12 skot í markinu. Einar Rafn Eiðsson skoraði 8 mörk fyrir KA og Bruno Bernat varði 6 skot fyrir Norðanmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×