Innlent

Ekki tekið á­kvörðun um að loka varnargarðinum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn. Vísir/Arnar

Viðbragðsaðilar á vettvangi gossins hyggjast ekki loka varnargarðinum við Grindavíkurveg að svo stöddu. Skarð er á varnargörðunum við Svartsengi og verður unnið í því að minnka það í dag.

Þetta segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, í samtali við Vísi. Hann segir unnið sé að því að ýta jarðveg sem safnað hafi verið við endann á varnargarðinum og að veginum, til þess að vera tilbúin að loka því ef það þarf.

„En það er ekki búið að taka ákvörðun um að gera meira í bili,“ segir Víðir. Hann segir stöðuna verða tekna aftur eftir klukkutíma.

„Við sjáum hvernig þessar hrauntungur hegða sér. Það virðist vera sem þær séu að renna inn á svæði þar sem þær geta dreift dálítið úr sér án þess að hafa áhrif á og reyna á varnargarðana.“

Víðir segir vinnu hafa staðið yfir við varnargarða í Grindavík allan sólarhringinn undanfarna daga. Því hafi vinnuvélar verið færðar að varnargörðum við Svartsengi þaðan í morgun. Hann segir vinnu viðbragðsaðila hafa gengið mjög vel í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×