Norski miðvörðurinn Erik Sandberg hefur verið á Akranesi síðustu daga og æft með ÍA, en fór af landi brott í gær. Kristján Óli Sigurðsson úr hlaðvarpsþættinum Þungavigtinni sagði ÍA vera að landa Sandberg en samkvæmt upplýsingum Vísis er það ekki frágengið.
Sandberg, sem er 23 ára, hefur spilað í efstu og næstefstu deild NOregs, með Lilleström, Skeid og svo Jerv síðsutu þrjú ár.
Ekki þarf að leita lengi á Instagram-síðu Sandberg til að finna myndir af honum með Erling Haaland, markakóngi Evrópu á síðustu leiktíð, en þeir hafa þekkst lengi og voru saman í yngri landsliðum Noregs.
Félagarnir stofnuðu auk þess rappsveitina Flow Kingz á sínum tíma ásamt Erik Botheim, sem einnig lék með yngri landsliðum Noregs, og gáfu út lagið Kygo Jo. Myndband við lagið hefur verið spilað ellefu milljón sinnum á YouTube.
Ljóst er að Skagamenn ætla að sækja sér miðvörð áður en keppnistímabilið hefst en það verður að koma í ljós hvort það verður Sandberg. Fyrsti leikur ÍA í Bestu deildinni, eftir sigurinn í Lengjudeildinni í fyrra, verður við Val á Hlíðarenda 7. apríl.