Handbolti

Viktor Gísli lokaði búrinu í Evrópudeildinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson var í stuði í liði Nantes í kvöld.
Viktor Gísli Hallgrímsson var í stuði í liði Nantes í kvöld. Uros Hocevar/Kolektiff Images/DeFodi Images via Getty Images

Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson átti frábæran leik fyrir HBC Nantes er liðið vann átta marka sigur gegn Górnik Zabrze í Evrópudeildinni í handbolta í kvöld, 31-23.

Viktor Gísli varði 17 skot í marki heimamanna og endaði með tæplega 44 prósent hlutfallsvörslu. Nantes leiddi með sex mörkum í hálfleik og vann að lokum öruggan átta marka sigur, 31-23.

Viktor og félagar tróna á toppi riðils 1 í Evrópudeildinni með sex stig eftir fjóra leiki, en Zabrze situr á botninum með tvö stig.

Í sama riðli unnu Ýmir Örn Gíslason og félagar hans í Rhein-Neckar Löwen nauman eins marks sigur gegn Hannover-Burgdorf, 27-26. Liðin eru jöfn að stigum í 2. og 3. sæti riðilsins, bæði með fjögur stig.

Þá skoraði Teitur Örn Einarsson fjögur mörk fyrir Flensburg er liðið vann tíu marka sigur gegn Vojvodina, 26-36, og Orri Fryer Þorkelsson skoraði fjögur fyrir Sporting í eins marks sigri gegn Füchse Berlin, 31-32.

Að lokum skoraði Óðinn Þór Ríkharðsson fjögur mörk fyrir Kadetten Schaffhausen í sex marka tapi gegn Bjerringbro-Silkeborg, en Tryggvi Þórisson komst ekki á blað fyrir Sävehof er liðið tapaði gegn Skjern, 27-29.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×