Loðnan er næstverðmætasti veiðistofn Íslendinga á eftir þorskinum. Hún er svo mikið ævintýri að aðeins fárra vikna veiði getur skilað tugmilljarða króna útflutningstekjum. Það er því ekki nema von að útgerðin og Hafrannsóknastofnun efni núna til þriðju leitarinnar frá áramótum. Sjávarútvegsfyrirtækin greiða tvo þriðju hluta kostnaðar að þessu sinni.
„Já, það er augljóst að það er mikið undir. Og einmitt vegna þess hvað þetta er skammlífur stofn og miklar sveiflur í honum, að þá er þetta mikil spenna í kringum þetta,“ segir Birkir Bárðarson, fiskifræðingur og verkefnisstjóri loðnuleitar, í viðtali í fréttum Stöðvar 2.

Hvorugt skip Hafrannsóknastofnunar mun þó taka þátt í leitinni heldur þrjú skip frá útgerðinni. Ásgrímur Halldórsson og Polar Ammassak halda á morgun til leitar undan Suðausturlandi og Heimaey fer á föstudag til leitar undan Vestfjörðum og vestanverðu Norðurlandi.
„Það er ennþá von. Við þurfum ekki að fara lengra aftur en í síðasta ár. Í febrúar í fyrra birtist mikið magn af loðnu út af Húnaflóa á þessum tíma, svipuðum tíma og núna. Það er ennþá möguleiki að það geti til dæmis eitthvað birst á því svæði.“
Þar fannst raunar óvænt risatorfa í fyrra.
„Þá birtust 400 þúsund tonn þarna út af Húnaflóanum, rúmlega það,“ segir fiskifræðingurinn.

Niðurstöður loðnuleitarinnar gætu legið fyrir um eða upp úr næstu helgi. En ef eitthvað finnst er hins vegar ljóst að þá verður skammur tími til stefnu því það styttist í hrygningu loðnunnar.
„Ég held að það sé alveg ljóst að það er orðinn stuttur tími líka fyrir skipin að veiða þetta. Þannig að stutta svarið er kannski að þetta verður ekki risavertíð. Það held ég að hljóti að vera ljóst.
En nákvæmlega hvað magnið verður og hvort það verður eitthvað, það verða bara niðurstöðurnar okkar að leiða í ljós,“ segir Birkir.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: