Körfubolti

Ó­stöðvandi Celtics unnu áttunda leikinn í röð

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Boston Celtics eru með flesta sigurleiki allra liða í deildinni
Boston Celtics eru með flesta sigurleiki allra liða í deildinni Steven Ryan/Getty Images

Boston Celtics unnu áttunda leik sinn í röð, 116-102 gegn New York Knicks. Paulo Banchero tryggði Orlando Magic sigur með villuskoti þegar innan við sekúnda var eftir og Kevin Durant varð níundi stigahæsti leikmaður í sögu NBA deildarinnar. 

Boston situr í efsta sæti austursins með flesta sigurleiki í deildinni og átta sigurleikja forskot á Cleveland Cavaliers í öðru sæti austursins. Celtics hafa verið á miklu flugi, unnið átta í röð og þrettán af síðustu fimmtán leikjum. 

Þrátt fyrir frábært gengi upp á síðkastið héldu stjörnur liðsins sér á jörðinni í viðtölum eftir leik. Jalen Brown sagði liðið eiga meira inni og Al Horford sagði Joe Mazzulla, þjálfara liðsins, ýta þeim áfram á hverjum degi í átt til betri spilamennsku. 

Paulo Banchero tryggði Orlando Magic sigur 112-109 gegn Detroit Pistons þegar innan við sekúnda var eftir af leiknum með góðu bakfallsskoti yfir Jalen Duren sem braut af sér þegar hann reyndi að stöðva skotið. Paulo fór á línuna og skoraði úr aukaskotinu. 

Þetta var fimmti tapleikur Pistons í röð eftir tvo óvænta sigra í byrjun mánaðar. Orlando Magic er í 6. sæti austurdeildarinnar, einum sigri frá 76ers. 

Kevin Durant spilaði með Phoenix Suns í 110-114 tapi gegn Houston Rockets. Hann tók fram úr Carmelo Anthony sem níundi stigahæsti leikmaður í sögu deildarinnar. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×