Flensburg voru á heimavelli og opnuðu markareikning leiksins eftir þrjátíu sekúndur. Gestirnir frá höfuðborginni skoruðu næstu þrjú og settu tóninn fyrir það sem koma skyldi.
Flensburg elti allan fyrri hálfleikinn en tókst loks að jafna rétt áður en flautað var til hálfleiks. Staðan var 17-17 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Liðin skiptust á forystum þegar komið var út í seinni hálfleikinn og engin leið var að spá fyrir um sigurvegara. Leikurinn var æsispennandi fram á lokamínútu, allt stefndi í sigur Flensburg eftir gott áhlaup undir lok leiks en Lasse Andersson jafnaði leikinn fyrir Füchse Berlin á síðustu sekúndu og tryggði stig.
Teitur Örn Einarsson skoraði eitt mark fyrir Flensburg og gaf eina stoðsendingu. Emil Jakobsen var markahæsti maður liðsins með átta mörk. Berlínarmegin var Mathias Gidsel atkvæðamestur með níu mörk og fjórar stoðsendingar.
Füchse Berlin styrkti stöðu sína örlítið í efsta sæti deildarinnar og hafa með þessu jafntefli unnið sér inn 39 stig á tímabilinu. Magdeburg er stutt undan í öðru sæti með 36 stig. Flensburg fylgir þeim svo eftir í 3. sæti með 33 stig þegar tólf umferðir eru eftir.