Engar frekari upplýsingar liggja fyrir að svo stöddu en erlendir miðlar gera því skóna að með þessu sé palestínska heimastjórnin að greiða fyrir umbótum. Bandaríkjamenn hafa sagt nýja og „endurbætta“ heimastjórn eiga að taka við yfirráðum á Gasa þegar stríðinu lýkur.
Stjórnvöld Palestínu á Vesturbakkanum viðurkenna Ísrael og hafa verið viljug til að ræða svokallaða „tveggja ríkja lausn“ í deilu Palestínumanna og Ísraelsmanna. Vald þeirra er hins vegar takmarkað og þá hafa þau verið sökuð um spillingu.
Hamas-samtökin tóku yfir Gaza eftir kosningasigur árið 2006 en ólíkt palestínsku heimastjórninni eru samtökin ekki fylgjandi tveggja ríkja lausninni, þar sem þau viðurkenna ekki tilvist Ísraelsríkis.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, kallaði herráð sitt saman á laugardag og það mun funda aftur í vikunni til að leggja drög að aðgerðum í Rafah. Hann segir mögulegt vopnahlé hugsanlega munu fresta aðgerðum á svæðinu en ekki koma í veg fyrir þær.
Bandaríkjamenn segja drög að vopnahléssamkomulagi liggja fyrir en enn eigi eftir að ræða nokkra þætti þess. Yfirvöld í Katar og Egyptalandi muni þurfa að eiga viðræður við Hamas hvað þá varðar.
Sami Abu Zuhri, háttsettur embættismaður innan Hamas, segir yfirlýsingar Netanyahu um að vopnahlé muni ekki koma í veg fyrir innrás í Rafah sýna að Ísraelsmönnum sé ekki alvara hvað varðar vopnahlésviðræðurnar.