Sport

Keppti ó­vænt í fyrsta sinn í marga mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sólveig Sigurðardóttir náði þriðja sætinu á sínu fyrsta móti í langan tíma.
Sólveig Sigurðardóttir náði þriðja sætinu á sínu fyrsta móti í langan tíma. @solasigurdardottir

Ein af stærstu CrossFit stjörnum Íslendinga sagði ekki frá því að hún væri að keppa um helgina en hún var óvænt meðal keppenda í einvíginu í sandinum.

Sólveig Sigurðardóttir var þarna að keppa á sínu fyrsta CrossFit móti síðan síðasta sumar. Sólveig tók þá þátt í SandClash mótinu í Sádi Arabíu og náði þar þriðja sætinu.

@solasigurdardottir

Sólveig hafði tekið sér frí frá keppni í meira en hálft ár eftir vonbrigðin í fyrrasumar þegar henni tókst ekki að tryggja sér sæti á heimsleikunum. Árið áður hafði hún slegið í gegn og komist alla leið á heimsleikana. Samkeppnin er mikil í heiminum og hún sat eftir með sárt ennið eftir undanúrslitin í fyrra.

Það hefur lítið farið fyrir Sólveigu í CrossFit keppnunum síðan en það breyttist nú þegar undankeppni fyrir næstu heimsleika er að byrja.

Sólveig ákvað samt ekki að segja frá því á samfélagsmiðlum sínum að hún væri að snúa aftur til keppni.

„Ég keppti um helgina á SandClash mótinu. Ég hafði ekki keppt fyrr en síðasta sumar. Ég þurfti á fríi að halda,“ skrifaði Sólveig á samfélagsmiðlinum sínum.

„Ég átti nokkrar góðar æfingar og nokkrar ekki eins góðar. Ég var bara ánægð að fara aftur í keppnisskóna og geta notið þess,“ skrifaði Sólveig.

„Ég vildi ekki setja neina pressu á mig sjálfa um helgina og þess vegna sagði ég ekki frá því á samfélagsmiðlum að ég væri að fara að keppa. Ég vildi bara stökkva á þetta og finna aftur ánægjuna að keppa,“ skrifaði Sólveig.

Hún vann sér inn tuttugu þúsund sádi-arabíska ríala sem er meira en 730 þúsund íslenskar krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×