Handbolti

Sig­valdi frá­bær en Kiel best

Sindri Sverrisson skrifar
Sigvaldi Björn Guðjónsson er í stóru hlutverki hjá Kolstad.
Sigvaldi Björn Guðjónsson er í stóru hlutverki hjá Kolstad. EPA-EFE/Piotr Polak

Landsliðsmaðurinn Sigvaldi Björn Guðjónsson átti frábæran leik fyrir Kolstad þegar norska liðið kvaddi Meistaradeild Evrópu þetta árið með öruggum sigri á Pelister, 34-27.

Sigvaldi var næstmarkahæstur í liði Kolstad í kvöld en nýtti færin sín frábærlega því hann skoraði átta mörk úr níu skotum.

Þetta var fimmti sigur Kolstad í keppninni og liðið endar með 11 stig en það dugar þó ekki til að komast áfram í útsláttarkeppnina. Kolstad endaði í 7. sæti A-riðils, fyrir ofan Pelister sem lauk keppni án stiga.

Þýska stórveldið Kiel endaði hins vegar á toppi A-riðils með 22 stig, eftir 33-22 sigur gegn Zagreb í kvöld. Kiel þurfti stig til að gulltryggja efsta sætið og mun ásamt Aalborg, sem endar í 2. sæti, fá að sitja hjá í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar og fara beint í 8-liða úrslitin.

Niclas Ekberg varð markahæstur hjá Kiel með 9 mörk úr 14 skotum og Mykola Bilyk skoraði sjö mörk.

Zagreb endar í 5. sæti A-riðilsins, eða mögulega 6. sæti ef að Pick Szeged nær að vinna PSG í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×