Með appinu hafa notendur geta millifært peninga sín á milli líkt og í samkeppnisforrtinu Aur sem er í eigu Kviku banka. Kvika keypti Aur á 458 milljónir króna árið 2021 af Nova og fleiri hluthöfum.
Íslandsbanki stofnaði Kass í framhaldi af velgengni Aur en forritið náði þó aldrei víðlíka vinsældum. Kass fékk íslensku vefverðlaunin, sem Samtök vefiðnaðarins standa fyrir, sem besta appið 2016 og segir í tilkynningu Íslandsbanka að það hafi haft mikil áhrif á notkun greiðslutækja á Íslandi.
„Umhverfi fjártækni og greiðslulausna er hins vegar síkvikt og breytingar örar. Mikil þróun hefur átt sér stað í appi Íslandsbanka og mun sú þróun halda áfram og taka mið af þörfum viðskiptavina,“ segir í tilkynningu Íslandsbanka.
„Íslandsbanki fylgist jafnframt náið með þeirri miklu og hröðu þróun sem á sér stað á sviði tæknilausna í fjármálaþjónustu og leggur ríka áherslu á samstarf og stuðning við verkefni sem koma muni viðskiptavinum bankans til góða.“