„Kill notice“ felur í sér afturköllun myndarinnar en þetta þýðir í raun að myndaveiturnar treysta sér ekki lengur til að selja notendum sínum umrædda mynd, af einhverjum ástæðum.
Associated Press, Agence France-Press og Reuters eru meðal þeirra fréttaveitna sem hafa afturkallað myndina en hún birtist upphaflega á samfélagsmiðlasíðum Katrínar og Vilhjálms Bretarprins.
Var Vilhjálmur sagður höfundur myndarinnar.
Samkvæmt talsmanni AP var myndin dregin til baka eftir að í ljós kom að átt hafði verið við hana og sást það á annarri peysuermi Karlottu prinsessu. Reuters gaf út yfirlýsingu vegna ákvörðunarinnar og var þar vísað til sömu ástæðu en ekki væri vitað hvers vegna átt var við myndina né hver hefði gert það.
![](https://www.visir.is/i/6904A154CD8127E72DFB8007EA3720197BE864701443F093A8DA31332973C88C_713x0.jpg)
Fréttaveitan PA hefur ekki dregið myndina til baka en segist hafa leitað skýringa hjá Kensington-höll.
Strangar reglur gilda um meðferð fréttaljósmynda og yfirleitt er aðeins leyfilegt að gera smávægilegar breytingar á til að mynda lit og skerpu til að gera þær greinilegri. Ekki er heimilt að gera „efnislegar“ breytinar á þeim.
Umrædd mynd er fyrsta myndin sem birt er af Katrínu síðan um jólin og eftir að hún gekkst undir aðgerð í Lundúnum á dögunum. Ekki hefur verið greint frá því um hvers konar aðgerð var að ræða og hefur það vakið miklar vangaveltur um heilsu prinsessunnar.