Það voru Atlético Madrid og Dortmund sem tóku síðustu lausu sætin í 8-liða úrslitum. Dortmund vann PSV 2-0, og einvígið samtals 3-1, en Atlético komst naumlega með einvígi sitt við Inter í framlengingu og réðust úrslitin í vítaspyrnukeppni.
Það var Jadon Sancho, lánsmaður hjá Dortmund frá Manchester United, sem skoraði afar mikilvægt mark snemma leiks gegn PSV og kom þýska liðinu yfir í einvíginu. Marco Reus innsiglaði svo sigurinn með auðveldu marki rétt áður en flautað var til leiksloka.
Spennan var mikil í Madrid þar sem heimamenn í Atlético lentu undir á 33. mínútu, þegar Federico Dimarco skoraði eftir frábæran samleik Inter fram völlinn.
Antoine Griezmann jafnaði metin fljótt þegar hann nýtti sér mistök í vörn Inter. Þegar fjórar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma skoraði svo Memphis Depay úr miðjum teignum og jafnaði einvígið.
Ekkert var skorað í framlengingunni en í vítaspyrnukeppninni reyndust heimamenn sterkari. Jan Oblak varði tvær spyrnur og Lautaro Martínez þrumaði hátt yfir úr síðustu spyrnu Inter.
Liðin í átta liða úrslitum eru því Arsenal, Barcelona, PSG, Atlético Madrid, Dortmund, Bayern München, Manchester City og Real Madrid. Dregið verður í átta liða og undanúrslit í hádeginu á morgun.