Þá hefur Ísland veitt „veruleg viðbótarframlög“ vegna átaka á Gasaströndinni sem farið hafa til Alþjóðabankans, Alþjóðaráðs Rauða krossins og Rauða hálfmánans og Alþjóðlega sakamáladómstólsins.
Ísland hætti stuðningi við UNRWA fyrr á þessu ári eftir að yfirvöld í Ísrael bendluðu starfsmenn stofnunarinnar við árásirnar í Ísrael þann 7. október. Í tilkynningu á vef utanríkisráðuneytisins segir að Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra, hafi ákveðið að hefja greiðslur aftur.
Það sé í kjölfar viðræðna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna vegna ásakana Ísraela. Ísland hefur meðal annars lagt áherslu á að ásakanirnar verði rannsakaðar ítarlega og umbætur verði gerðar á grundvelli þeirrar vinnu. Þar að auki hefur áhersla verið lögð á að hlutleysi stofnunarinnar og gagnsæi um fjárreiður hennar verði tryggt til framtíðar.
Önnur ríki eins og Danmörk, Svíþjóð og Kanada, auk Evrópusambandsins hafa einnig byrjað aftur að veita UNRWA fé.