Handbolti

Magdeburg þjarmar að toppliðinu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Janus Daði Smárason var markahæstur af Íslendingatríói Magdeburg.
Janus Daði Smárason var markahæstur af Íslendingatríói Magdeburg. Ronny Hartmann/picture alliance via Getty Images

Þrír leikir fóru fram í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld og Íslendingar komu við sögu í þeim öllum. 

Íslendingatríóið í Magdeburg lék á alls oddi gegn Erlangen, sem situr í 12. sæti deildarinnar. Janus Daði skoraði 4 mörk úr 4 skotum og gaf 3 stoðsendingar, Ómar Ingi skoraði 3 mörk, gaf 2 stoðsendingar og stal einum bolta og Gísli Þorgeir skoraði 1 mark og gaf 2 stoðsendingar. 

Öruggur 27-22 sigur hjá þeim og Magdeburg þjarmar að efsta liði deildarinnar, Fuchse Berlin. 

Berlínarmenn unnu einmitt stórsigur í kvöld 36-28 í heimsókn sinni til Rhein-Neckar Löwen, liði Ýmis Arnar Gíslasonar. 

Fucshe Berlin trónir því enn á toppnum, með 43 stig eftir 24 leiki, Magdeburg er stigi neðar en á leik til góða. 

Á öðrum vígstað tók Burgdorf á móti Balingen. Heimamenn unnu þar með 9 mörkum, 35-26. Oddur Grétarsson var markahæstur í tapliði Balingen með 7 mörk úr 11 skotum. Balingen situr áfram í neðsta sæti deildarinnar með 11 stig eftir 25 leiki.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×