Bláa lónið hefur nú verið lokað frá því að það var rýmt þegar eldgos hófst á Reykjanesskaga fyrir ellefu dögum. Há gildi af brennisteinsdíoxíð (S02) hafa mælst á svæðinu í kjölfar gossins. Fyrir viku þurfti starfsmaður Bláa Lónsins að leita sér læknisaðstoðar vegna eitrunareinkenna.

Til stóð að Bláa lónið yrði opnað á ný í dag. Seinnipartinn í gær sendi Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, hinsvegar frá sér yfirlýsingu þess efnis að hann teldi óforsvaranlegt að halda úti starfsemi í Bláa Lóninu á meðan eldgos væri enn í gangi.
„Úlfar nefndi sérstaklega að það væri vart forsvaranlegt þegar það væru breytilegar vindar. Þá er staðan þessi og við erum honum hjartanlega sammála,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu- markaðs og vöruþróunarsviðs Bláa lónsins.
„Þessvegna erum við að meta stöðuna, læra á þessar áskoranir, vinna áhættumat með verkfræðistofunni Eflu og fjölga mælum. En auðvitað gerum við ekkert nema í nánu samstarfi við yfirvöld og þá sérstaklega lögreglustjórann á Suðurnesjum.“
Gasmengun sé helsta áskorunin sem þau standi frammi fyrir núna.
„Og hún virðist vera ólík þeirri sem við áttum að venjast í fyrri gosum. Þannig við erum auðvitað að læra inn á þessar nýju áskoranir eins og yfirvöld og allir aðrir. Við auðvitað tökum hana mjög alvarlega og munum ekki opna fyrr en okkur líður vel með stöðuna og áhættumat liggur fyrir.“
Páskar háannatími og fjölmargir áttu bókað
Staðan verður endurmetin á mánudag og Helga bindur vonir við að mögulega verði hægt að opna á þriðjudag. Hún segir að í Bláa lóninu, líkt og í ferðaþjónustu í heild séu páskar ákveðin háönn og það hafi verið vel bókað.
„Því miður þurfum við að afbóka þá sem áttu bókað eða voru á leið til okkar, en það er ekki stóra málið. Við erum fyrst og fremst á þessum tímapunkti að ná utan um stöðuna.“
Þetta er auðvitað búið að vera krefjandi en svona er þetta bara og við höldum áfram.
Bláa lónið hefur samtals verið lokað í rúmlega áttatíu daga frá 10. nóvember.
„Við höfum verið svo lánsöm að þegar við höfum opnað aftur hafa gestir verið duglegir að koma til okkar og tekið því mjög fagnandi. Það er auðvitað það sem skiptir mestu máli,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu- markaðs og vöruþróunarsviðs Bláa lónsins