Íslandsbanki áformar að gefa öllu starfsfólki sínu sumargjöf að andvirði hundrað þúsund krónur í formi gjafabréfs í Icelandair samkvæmt upplýsingum þaðan. Bankinn hafi um árabil gefið starfsfólki sumargjöf í formi gjafabréfa og verðmæti þeirra hafi yfirleitt numið tugþúsundum króna.
Íslandsbanki var að fullu í eigu ríkisins þar til hann seldi hluti til almennings og fjárfesta á árunum 2021 og 22. Eftir á ríkið 42,5 prósent í bankanum.
Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins segir óviðeigandi að banki sem sé að hluta til í eigu ríkisins gefi slíkar gjafir.
„Þetta slær mann svolítið sérstaklega í ljósi þess að hér er um fyrirtæki að hluta til í eigu ríkisins. Við erum nýbúin að ganga frá kjarasamningum sem eiga að stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta og þessi sumargjöf nemur ígildi fjögurra mánaða launahækkunar miðað við það sem við vorum að semja um. Maður hrekkur við þegar maður sér þessa upphæð sérstaklega af því að Íslandsbanki skilaði 25 milljörðum í hagnað á síðasta ári,“ segir Vilhjálmur.
Hann telur að áherslur bankans ættu að vera með allt öðrum hætti.
„Ef viðskiptabankarnir í þessu tilviki Íslandsbanki telur sig geta greitt svona hækkanir út til starfsmanna sinna í sumargjöf þá held ég að það væri nær að láta þennan ávinning renna til viðskiptavina sinna og lækka þjónustugjöld og jafnvel vexti,“ segir Vilhjálmur.