Samkvæmt frétt The Dallas Morning News er Rice grunaður um ofsaakstur en hann mun hafa ekið Corvette-bifreið sinni í kappakstri við mann á Lamborghini-bifreið, þar til að þeir misstu stjórn á bifreiðunum.
Þetta olli stórum árekstri því fjórir bílar til viðbótar klesstu á. Ökumennirnir tveir sem tóku þátt í kappakstrinum flýðu af vettvangi en hlú þurfti að tveimur öðrum ökumönnum, og tveir menn voru fluttir á sjúkrahús með minni háttar áverka.
Áreksturinn átti sér stað klukkan 18:20 að staðartíma, í gærkvöldi, á hraðbraut í Dallas.
Kona sem slasaðist í árekstrinum segir að ökumennirnir hafi stofnað lífi fjögurra ára sonar hennar í hættu, og síðan gengið í burtu án þess að sýna nokkra samúð.
#Breaking | Kansas City Chiefs Rashee Rice suspected in connection with major accident in Dallas https://t.co/A7lDpDDtXX
— Dallas Morning News (@dallasnews) March 31, 2024
Talsmaður lögreglu segir að enn sé unnið að því að fá á hreint hverjir hafi ekið Corvette- og Lamborghini-bílunum en The Dallas Morning News segist hafa undir höndum gögn frá lögreglu um að Rice sé grunaður um að vera annar ökumannanna.
Rice, sem er 23 ára, varð NFL-meistari með Kansas City Chiefs í vetur og átti ríkan þátt í titlinum, eftir að hafa verið valinn í annarri umferð nýliðavalsins í fyrra.