Það að Puszcza og Radomiak Radom geri 1-1 jafntefli í pólsku deildinni í knattspyrnu ratar alla jafna ekki í íslenska fjölmiðla. Hins vegar fá úrslit gærdagsins að fljóta með, einfaldlega vegna þess að gestirnir tryggðu sér stig á ótrúlegan hátt.
Gestirnir í Radomiak Radom lentu í kröppum dansi snemma leiks þegar heimamenn tóku forystuna strax á fjórðu mínútu leiksins.
Ekki batnaði útlitið á 63. mínútu þegar Radomiak Radom missti mann af velli með beint rautt spjald og gestirnir þurftu því að leika seinusta hálftíma leiksins manni færri.
Þrátt fyrir liðsmuninn tókst gestunum að finna jöfnunarmark aðeins þremur mínútum eftir að liðið missti mann af velli. Markið kom heldur betur úr óvæntri átt, en það var markvörðurinn Gabriel Kobylak sem jafnaði metin með skoti nánast frá eigin vítateig.
Eins og gefur að skilja fögnuðu liðsfélagar Kobylak markinu vel og innilega og varð niðurstaðan að lokum 1-1 jafntefli, en markið má sjá hér fyrir neðan.
🇵🇱😯 Radomiak Radon's goalkeeper Gabriel Kobylak scored from just outside his own box yesterday! 💫 pic.twitter.com/tNEwhyFvLe
— EuroFoot (@eurofootcom) April 2, 2024
Radomiak Radom situr nú í 11. sæti pólsku deildarinnar með 32 stig eftir 26 leiki, sjö stigum meira en Puszcza sem er einu stigi fyrir ofan fallsvæðið.