Hin 24 ára gamla Alexandra spilar í dag með Fiorentina í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni.
„Aðeins kaldara kannski,“ sagði Alexandra og hló aðspurð hvort það væri ekki örlítill munur á veðrinu í Reykjavík og Flórens á þessum árstíma.
„Þetta er bara voðalega fínt veður þó það sé skítakuldi. Það er allavega ekki mikill vindur,“ bætti miðjumaðurinn við.
Fiorentina er sem stendur í 3. sæti deildarinnar og er komið í bikarúrslit. Liðið hefur hins vegar tapað þremur leikjum í röð.
„Síðustu þrír leikir bara búnir að vera lélegir, 4-0 gefur ekki rétt mynd af leiknum síðasta laugardag. Búnar að vera erfiðar vikur hjá okkur og fínt að komast í þetta verkefni og fá svo fríhelgi eftir það.“
„Gleyma þessum þremur leikjum, allt annað hugarfar hér þar sem það er allt annað verkefni og allt annar hópur. Fínt að kúpla sig aðeins út.“
Leikurinn á morgun fer fram á Kópavogsvelli og hefur liðið því æft þar síðan það kom saman. Líkar Alexöndru það vel.
„Mér finnst bara fínt að spila hér. Ég var mjög ánægð þegar þau sögðu að leikurinn yrði á Kópavogsvelli,“ sagði Alexandra skælbrosandi.
Um leikinn gegn Póllandi
„Ótrúlega vel, flottur riðill sem við fengum og allir geta unnið alla. Við eigum líka bara bullandi að vera í efstu tveimur sætunum í þessum riðli sem er klárt markmið hjá okkur.“
„Þetta er lið með flotta leikmenn, margar að spila í þýsku úrvalsdeildinni. Spiluðum við þær fyrir EM 2022 og unnum 3-0 en það segir ekkert. Þær eru í A-riðli, öll lið þar eru ótrúlega góð og þetta verður ótrúlega erfiður leikur.“
Ísland mætir Póllandi klukkan 16.45 á morgun, föstudag.