Fjórir menn drápu eldri leigubílstjóra þegar þeir reyndu að ræna bíl hans í borginni Zacatelco í Tlaxcala-ríki. Nágrannar sem urðu vitni að ráninu eltu ræningjana höfðu hendur í hári tveggja þeirra og börðu þá á torgi. Þegar ríkislögreglumenn reyndu að skakka leikinn snerist múgurinn gegn þeim og misþyrmdi tveimur þeirra.
Félagar þeirra náðu að bjarga öðrum lögreglumanninum sem særðist alvarlega. Múgurinn hélt hinum lengur og barði til óbóta. Hann lést af sárum sínum á sjúkrahúsi, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Borgarbúar í Zacatelco eru sagðir hafa lýst óánægju um að glæpamenn fái að vaða uppi án afleiðinga. Það er raunar útbreitt viðhorf í Mexíkó.
Sums staðar hefur almenningur reynt að taka lögin í eigin hendur og taka meinta glæpamenn af lífi utan dóms og laga. Hvergi hefur kveðið eins rammt að því og í Tlaxcala-ríki þar sem 23 tilraunir til þess að drepa illvirkja voru gerðar frá janúar til september í fyrra. Þrír menn létust.
Kona sem var grunuð um að bana átta ára gamalli stúlki var barin til dauða í Guerrero-ríki i síðasta mánuði.