Fyrr í dag vann Magdeburg sannfærandi sigur á Füchse Berlín þar sem Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon voru allt í öllu. Elvar Örn Jónsson ákvað að vera ekki minni maður og var hreint út sagt magnaður í sigri Melsungen.
Leikurinn var í raun aldrei það spennandi. Melsungen skoraði fyrsta markið og komst 4-1 yfir snemma leiks. Flensburg gerði einstaka áhlaup en tókst mest að minnka muninn niður í tvö mörk í fyrri hálfleik. Melsungen endaði hins fyrri hálfleik á að skora síðustu þrjú mörkin og leiddi með fimm í hálfleik, 16-11.
Sama var upp á teningnum í síðari hálfleik og vann Melsungen sannfærandi sigur, lokatölur 33-28. Sigurinn hefði verið enn stærri ef Flensburg hefði ekki skorað síðustu tvö mörk leiksins.
Elvar Örn skoraði fimm mörk og gaf fimm stoðsendingar í liði Melsungen. Enginn í liðinu kom að fleiri mörkum. Arnar Freyr Arnarsson skoraði tvö og gaf eina stoðsendingu. Teitur Örn Einarsson skoraði þrjú og gaf eina stoðsendingu í liði Flensburg.

Melsungen mætir stórliði Magdeburgar í úrslitum á morgun, sunnudag. Leikurinn er sýndur beint á Vodafone Sport. Útsending hefst 13.30.