Íslenski boltinn

Vill vera jafn iðinn við kolann og Olga Fær­­seth

Aron Guðmundsson skrifar
Eyþór Aron Wöhler hefur skrifað undir þriggja ára samning við Bestu deildar lið KR
Eyþór Aron Wöhler hefur skrifað undir þriggja ára samning við Bestu deildar lið KR Vísir/Baldur

Ey­þór Aron Wöhler skrifaði á dögunum undir þriggja ára samning við Bestu deildar lið KR. Hann er stoltur yfir því að fá tæki­færi til þess að spila fyrir þetta sögu­fræga fé­lag og vill leggja lóð sitt á voga­skálarnir til að rita nýjan og glæstan kafla í Vestur­bænum.

Hinn 22 ára gamli Ey­þór Aron skiptir yfir til KR frá Breiða­bliki en þeir svart­hvítu úr Vestur­bænum hefur átt fljúgandi start í Bestu deildinni og halað inn fullu húsi stiga úr fyrstu tveimur leikjum sínum.

„Það er geggjaður andi hérna í Vestur­bænum og mikill heiður fyrir að vera hérna í stór­veldinu. Það er ein­hver með­byr hérna í augna­blikinu að byggjast upp og ég er ekkert nema stoltur að hafa skrifað undir samning hjá fé­laginu.“

Að­dragandinn að þessum fé­lags­skiptum. Er hann langur?

„Hann er frekar stuttur. KR hafði sam­band á þriðju­daginn síðast­liðinn og svo var skrifað undir samninginn á sunnu­daginn. Ég var ekki lengi að á­kveða mig þegar að KR kom að borðinu. Hoppaði strax á þetta.“

Blikar hafa að undan­förnu verið að bæta við sig mann­skap. Til að mynda kom Ísak Snær Þor­valds­son á láni til fé­lagsins frá Rosen­borg. Þegar að Blikar fóru að þétta raðirnar fór Ey­þór Aron að hugsa sér til hreyfings.

„Ég fór að hugsa um hvort kominn væri sá tími að ég færi að líta í kringum mig. KR kom þá inn í myndina.“

Og eins og fyrr segir þurfti Ey­þór Aron ekki að hugsa sig tvisvar um. Við­skilnaðurinn við Breiða­blik á sér þó stað í góðu.

„Ég kveð allt og alla þarna í Breiða­bliki í góðu. Þjálfara og leik­menn. Það er yfir engu að kvarta yfir þar.“

En hvernig horfir tími þinn hjá fé­laginu við þér?

„Lær­dóms­ríkur tími. Ekki spurning. Erfiður einnig á köflum. Þarna upp­lifði ég mikla sam­keppni en tek með mér góða vini og lær­dóms­ríkan tíma. Breiða­blik í heild sinni er frá­bært fé­lag sem tók vel á móti mér og hugsaði vel um mig. Ég óska því bara vel­farnaðar í fram­haldinu.“

Og mark­miðin eru skýr fyrir komandi tíma.

Um að gera hjá Eyþóri Aroni að setja markið hátt. Olga Færseth, goðsögn í sögu KR og íslenskrar knattspyrnu, skoraði 380 mörk í 325 meistaraflokksleikjum hér á landi.

„Maður sér söguna á öllum veggjum hér í Vestur­bænum. Mark­miðin eru há­leit hjá fé­laginu. Að skrifa söguna á nýjan leik. Sækja báðu stóru titlana. Ég er mjög spenntur fyrir komandi tímum. Mark­miðið er, meira og minna, að vera jafn iðinn við kolann og Olga Fær­seth var með KR á sínum tíma.“

Þá er hann spenntur fyrir því að reyna fyrir sér á gras­velli KR-inga, Meistara­völlum og stefnir allt í að fyrsti al­vöru heima­leikur Ey­þórs með KR verði akkúrat á móti hans gömlu fé­lögum í Breiða­bliki í fjórðu um­ferð Bestu deildarinnar.

„Ég mæti dýr­vit­laus inn í þann leik og megi allir góðir vættir vaka yfir Viktori og Damir í þeim leik. Nei ég segi svona. Það verður bara gaman að mæta Blikum. Ég mæti eins og Tasmaníu­djöfullinn inn á.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×