Þetta gerir hún undir rós, á almennum nótum og án þess að nefna Katrínu á nafn en enginn þarf að velkjast í vafa um að hverjum spjótin beinast. Steinunn Ólína segir velferðarkerfið hafa á undanförnum áratug verið holað að innan. Og hagsmunir almennings fyrir borð bornir.
„Myndun nýrrar ríkisstjórnar sýnir svo ekki er um að villast að okkar ágætu stjórnarþingmönnum finnst þeir ekki þurfa að hlusta á gagnrýni almennings. Ríkisstjórnin er einkapartý sjálfskipaðra sem almenningur hefur engan aðgang að.“
Steinunn segir almannavarnir ekki njóta stuðnings stjórnvalda, náttúran má undan láta, opinber þjónusta hafi verið skert, heilbrigðiskerfið í molum, húsnæðismarkaðurinn í molum, ungu fólki er nánast gert ókleift að eignast húsnæði, almenningur vanræktur og svikinn.
„Hver vill trúa því að okkar þjóðkjörna fólk sé í raun gerendur í þessarri stigmagnandi óeiningu? Ójöfnuðarsamfélag sem ekki heldur utan um sitt fólk býr til kjöraðstæður fyrir svokallaða skautun eða sundrungu fólks í milli. Þetta er heimatilbúið vandamál. Stjórnvöld hafa vísvitandi valdið sundrungu hópa með því að hola að innan velferðarkerfið og sá illgresisfræjum í hjörtu Íslendinga,“ skrifar Steinunn Ólína og segir þjóðina eiga betra skilið.