Handbolti

Árs bann fyrir á­rás á eftir­lits­mann og þjálfarinn fékk líka bann

Sindri Sverrisson skrifar
Eftirlitsmaður leiksins féll í gólfið eftir að einn af leikmönnum Nexe ruddi honum niður.
Eftirlitsmaður leiksins féll í gólfið eftir að einn af leikmönnum Nexe ruddi honum niður. Skjáskot/Youtube

Króatíska handknattleikssambandið hefur ákveðið að úrskurða Slóvenann Marko Bezjak í tólf mánaða bann vegna árásar hans á eftirlitsmann í toppslag Nexe og Zagreb í efstu deild Króatíu í handbolta, fyrr í þessum mánuði.

Bezjak, sem spilar með Nexe, gekk harkalega utan í eftirlitsmanninn við hliðarlínuna þannig að hann féll í gólfið og endaði á sjúkrahúsi.

Nexe-mönnum var heitt í hamsi vegna dómgæslunnar en upp úr sauð rétt fyrir lok fyrri hálfleiks, þegar staðan var 16-9 fyrir Zagreb. Nexe hafði þá skorað mark úr hraðaupphlaupi en dómararnir voru búnir að dæma vítakast og tveggja mínútna brottvísun á leikmann Zagreb. Vítakastið var hins vegar aldrei tekið og leikurinn flautaður af vegna látanna sem fylgdu í kjölfarið.

Bezjak hefur nú fengið eins árs bann og er það langþyngsti dómurinn vegna málsins. Þjálfarinn þekkti Veselin Vujovic, sem tók við Nexe í febrúar, fékk þriggja mánaða bann. Í gær var hins vegar tilkynnt að hann væri hættur sem þjálfari Nexe, eftir óvænt tap gegn RK Porec sem gerir að verkum að Nexe gæti endað í 3. sæti deildarinnar.

Kreso Ivankovic, sem var aðstoðarþjálfari, mun stýra Nexe í síðsutu tveimur leikjum liðsins í deildinni og í undanúrslitum og mögulega úrslitaleik bikarkeppninnar.

Andraz Velkavrh, leikmaður Nexe, fékk fjögurra leikja bann fyrir sinn þátt í látunum í leiknum við Zagreb. Félaginu sjálfu, Nexe, var hins vegar aðeins frefsað með 4.000 evru sekt, eða um 600.000 króna sekt, en ekki með stigafrádrætti. Liðinu var hins vegar dæmt 10-0 tap í leiknum við Zagreb sem aldrei var kláraður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×