Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, greindi frá meiðslum Jota í dag en Portúgalinn meiddist eftir að hafa skorað í 3-1 sigrinum gegn Fulham á sunnudaginn.
„Diogo skoraði markið, fann eitthvað smá og núna er komið í ljós að þetta er eitthvað meira, svo hann verður frá keppni í tvær vikur,“ sagði Klopp.
Meiðsli hafa truflað Jota á tímabilinu en hann hefur spilað 21 deildarleik, þar af 14 í byrjunarliði, en náð að skora tíu mörk á 1.150 mínútum. Markatíðni hans er því meiri en hjá nokkrum öðrum leikmanni í ensku úrvalsdeildinni í vetur, ef víti eru ekki talin með.
Most non-penalty goals per 90 in the Premier League this season (minimum 500 minutes played):
— Squawka (@Squawka) April 23, 2024
◉ Diogo Jota (0.78)
◎ Chris Wood (0.74)
◎ Elijah Adebayo (0.7)
◎ Erling Haaland (0.66)
◎ Alexander Isak (0.66)
◎ Richarlison (0.66)
A big miss for Liverpool. 😔 pic.twitter.com/rEZrOLAjua
Jota skorar að meðaltali 0,78 mörk í leik en næstur er Chris Wood hjá Nottingham Forest með 0,74 mörk. Annar af markahæstu mönnum deildarinnar í vetur, Erling Haaland, er með 0,66 mörk að meðaltali í leik ef vítin eru ekki talin með, og Cole Palmer með 0,48 mörk en 9 af 20 mörkum hans hafa komið af vítapunktinum.
Liverpool er í harðri baráttu um Englandsmeistaratitilinn og aðeins markatala veldur því að liðið er ekki á toppnum í stað Arsenal. Liðin eru stigi á undan Manchester City sem á leik til góða.
Jota kemur til með að missa af leiknum við Everton annað kvöld, við West Ham á laugardaginn og gegn Tottenham 5. maí, en gæti mögulega náð leiknum við Aston Villa 13. maí. Lokaleikur Liverpool á tímabilinu er svo við Wolves 19. maí.