Körfubolti

Sér­fræðingarnir ekki sam­mála og mikil spenna fyrir oddaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukakonan Tinna Guðrún Alexandersdóttir verður í stóru hlutverki í leiknum í kvöld.
Haukakonan Tinna Guðrún Alexandersdóttir verður í stóru hlutverki í leiknum í kvöld. Vísir/Diego

Haukar og Stjarnan spila í kvöld hreinan úrslitaleik um sæti í undanúrslitum Subway deildar kvenna í körfubolta. Vísir fékk sérfræðingana í Subway Körfuboltakvöldi til að spá fyrir um hvernig fer í kvöld.

Lið Hauka og Stjörnunnar hafa bæði unnið tvo leiki í einvíginu, Haukastelpurnar unnu báða leikina í Hafnarfirði en Stjörnustelpur unnu báða leikina í Garðabæ. Í kvöld verður spilað í Ólafssal á Ásvöllum, heimavelli Hauka.

Sigurvegari leiksins í kvöld mætir síðan deildar- og bikarmeisturum Keflavíkur í undanúrslitunum en í hinu undanúrslitaeinvíginu mætast Grindavík og Njarðvík.

Leikurinn á Ásvöllum í kvöld hefst klukkan 19.15 og verður hann sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 18.45 á sömu rás.

Haukar enduðu einu sæti og einum sigri á undan Stjörnuliðinu í vetur en unnu þrjá af fjórum deildarleikjum liðanna í vetur. Stjörnukonur hafa enn fremur tapað fjórum sinnum á Ásvöllum í vetur, í deild og úrslitakeppnin, en það munaði aðeins tveimur stigum í síðasta leik.

Stjörnuliðið er ungt og óreynt í úrslitakeppni en þær sýndu í síðasta leik að þær gefast aldrei upp. Þær voru fjórtán stigum undir í byrjun fjórða leikhluta og á leið í sumarfrí em unnu lokakafla leiksins 29-6 og tryggðu sér oddaleik.

Haukakonur þekkja þessa stöðu miklu betur. Þær eru að spila oddaleik þriðja árið í röð en hafa reyndar tapað hinum tveimur (í lokaúrslitum 2022 og í undanúrslitum 2023). Nú hlýtur mottó þeirra að vera allt er þegar þrennt er.

Vísir fékk sérfræðingana í Subway Körfuboltakvöldi kvenna til að spá fyrir um úrslit leiksins í kvöld og þar vekur athygli að sérfræðingarnir eru ekki sammála. Það sýnir því svart á hvítu að það er mikil spenna í loftinu fyrir þennan oddaleik.

Þrír spá Haukum sigri og þrír spá Stjörnunni sigri. Þetta getur því ekki verið jafnara.

  • Spá sérfræðinganna um oddaleik Hauka og Stjörnunnar:
  • -

  • Ólöf Helga Pálsdóttir
  • Hver vinnur? Haukar.
  • Hvernig? Leikurinn í járnum og endar með tveggja stiga mun eða framlengdum leik.
  • Hver verður best? Tinna Guðrún Alexandersdóttir og Keira Robinson í Haukum
  • Hvern vill Keflavík fá? Keflavík er alveg sama.
  • -
  • Hallveig Jónsdóttir
  • Hver vinnur? Haukar.
  • Hvernig? Mjög jafn leikur
  • Hver verður best? Tinna Guðrún Alexandersdóttir í Haukum
  • Hvern vill Keflavík fá? Keflavík er slétt sama hverjar þær fá. Þær vinna bæði þessi lið 3-0 og í versta falli 3-1.
  • -
  • Bryndís Guðmundsdóttir
  • Hver vinnur? Stjarnan.
  • Hvernig? Stjarnan vinnur þetta með fimm stigum.
  • Hver verður best? Ísold Sævarsdóttir og Kolbrún María Ármannsdóttir í Stjörnunni
  • Hvern vill Keflavík fá? Skiptir ekki máli hvort liðið þær fá. Keflavík vinnur þá seríu 3-0.
  • -
  • Pálína Gunnlaugsdóttir
  • Hver vinnur? Stjarnan.
  • Hvernig? Leikurinn verður í járnum frá fyrstu til síðustu mínútu. Spennustigið hátt og skotnýting beggja liða slök. Mikill barátta og barningur.
  • Hver verður best? Katarzyna Trzeciak verður maður leiksins en allir litlu töffararnir verða í hlutverki.
  • -
  • Berglind Gunnarsdóttir
  • Hver vinnur? Haukar
  • Hvernig? Vinna með sex til átta stigum
  • Hver verður best? Keira Robinson og Tinna Guðrún Alexandersdóttir skilar sínu
  • Hvern vill Keflavík fá? Keflavik slett sama og taka næstu seríu 3-1.
  • -
  • Ingibjörg Jakobsdóttir
  • Hver vinnur? Stjarnan
  • Hvernig? Stjarnan vinnur sannfærandi
  • Hver verður best? Katarzyna Trzeciak verður maður leiksins ásamt Kolbrúnu Maríu Ármannsdóttur og Ísold Sævarsdóttur.
  • Hvern vill Keflavík fá? Keflavik er slétt sama. Vilja bara spila við hvern sem er.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×