Markið kom í viðureign ríkjandi bikarameistara Víkings og Víðis, en Víðismenn leika í 3. deild í sumar. Í stöðunni 0-0 á 13. mínútu fengu Víðismenn aukaspyrnu á eigin vallarhelmingi og Jimenez tók eftir því að Pálmi Rafn Arinbjörnsson var mjög framarlega á vellinum og lét vaða af um það bil 70 metra færi. Sjón er sögu ríkari.
ALVÖRU MARK! David Toro Jimenez kom Víði yfir gegn ríkjandi bikarmeisturunum, sirka 70 metra færi. Vá! 😲🏆 @vidir_gardi pic.twitter.com/gDiqApbPjZ
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) April 25, 2024
Þetta mark dugði Víðismönnum þó skammt þar sem bikarmeistararnir skoruðu fjögur mörk í kjölfarið.
Þetta er annað sumarið í röð sem leikmaður úr neðrideildar liði skorar mark fyrir aftan miðju en síðasta vor skoraði Óskar Örn Hauksson, sem þá lék með Grindavík, mark gegn Valsmönnum í Mjólkurbikarnum í 16-liða úrslitum.