Skoðun

Biskups­kjör: Stuðnings­yfir­lýsing

Hákon Leifsson og Sigrid Rolof skrifa

Kór Grafarvogskirkju lýsir yfir fullum stuðningi við framboð Guðrúnar Karls Helgudóttur til biskups, nú þegar Íslensk Þjóðkirkja gengur saman til kosninga og velur sér biskup. Guðrún er sannarlega atorkusamur og frumkvæðis mikill leiðtogi í sinni kirkju, snörp að taka ákvarðanir, skynsöm á örlaga stundu og góður hlustandi. Hún hefur undanfarin ár sem sóknarprestur haldið styrkum höndum utan um fjölbreytt safnaðarlíf í Grafarvogskirkju og leitt söfnuðinn fallega áfram í öllu helgihaldi og daglegu safnaðarstarfi. Hún er reynd og flink við að takast á við erfiðar aðstæður, hvort heldur sem um er að ræða skin eða skúrir, sorg eða gleði. Það er gott að leita til hennar í þrengingum og í raun, en einnig auðvelt og gaman að gleðjast með henni á fagnaðarstundu innan kirkjunnar. Það er okkar trú að hún verði atorku mikill, framsækinn og farsæll biskup, hún verði óhrædd við að sækja fram á nýjar lendur kristilegs starfs á grösugum akri Þjóðkirkjunnar. Það er einnig trú okkar að sr. Guðrún geti leitt Íslenska Þjóðkirkju styrkum höndum út úr þrengingum undanfarinna ára, sótt fram með nýrri, jákvæðri, vægðar- og óttalausri nálgun til nýs lífs og farsælla breytinga. Við teljum að Guðrún eigi auðvelt með að taka ákvarðanir með hliðsjón af breyttu fjölmenningar samfélagi á Íslandi og einnig eigi hún auðvelt með að taka mið af flóknum samfélagsbreytingum sem eru að eiga sér stað í menningu landsins með margbreytilegum hætti. Það er að lokum trú okkar að sr.Guðrúnu muni auðnast að uppfæra Íslenska þjóðkirkju í takt við hjartslátt samtima síns, og að hún geti fært kirkjuna nær fólkinu í landinu og tekið mið af síbreytilegri, flókinni og oft viðsjárverðri heimsmynd nútímavæðingar dagsins í dag. Við mælum eindregið með Guðrúnu Karls Helgudóttur til að vera biskup Íslensku Þjóðkirkjunnar“

Fyrir hönd Kórs Grafarvogskirkju,

Hákon Leifsson kórstjóri og Sigrid Rolof, formaður kórs Grafarvogskirkju.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×