Ég var stödd í foreldrafræðslu þar sem verið var að tala um að foreldrahlutverkið getur valdið streitu og eitt það besta sem við gætum gert til að draga úr streitunni og efla tengsl fjölskyldunnar væri að leika okkur saman.
Leikur getur verið svo ótrúlega nærandi og ávinningur meiri leiks getur til dæmis verið að:
- Draga úr streitu og efla heilsu og vellíðan
- Leysa úr læðingi skapandi hugsun og ýta undir nýsköpun
- Búa til öruggt rými fyrir lærdóm og tilraunir
- Breyta sjónarhornum og ýta undir forvitni
Til þess að ýta undir meiri leik ákvað ég ásamt Markus Utomo, leikjasérfræðingi sem hefur unnið með fyrirtækjum eins og Audi og Lufthansa við að efla leik, og Dr. Nelly Nguyen, ráðgjafa og markþjálfa sem nýtir leik mikið í starfi sínu, að setja af stað áskorun sem snýst um að við leikum okkur eitthvað smá á hverjum degi í maí, og ýtum þannig undir það að leikur verði að venju í lífi okkar.
Áskorunin kallast Let‘s Play in May og ef þú hefur áhuga á að vera með þá mælum við með því að þú setjir leik inn í dagatalið þitt, skorar á aðra að leika sér meira og ef þú vilt fá hugmyndir að leikjum, sögur og fræðslu þá munum við pósta því á LinkedIn síðu Let's Play in May
Hér eru nokkrar tillögur að leikjum sem þú getur nýtt þér:
Satt, satt, logið - Segðu einhverjum frá þrennu sem þú hefur upplifað í lífinu eða gerðist í dag og eitt atriðanna á að vera lygi og viðkomandi á að giska hvað er satt og hvað er lygi.
Syngdu í bílnum á leiðinni í vinnuna
Danspartý
Feluleikur - Fólk felur sig eða hlut
Leikjavæddu daginn - Breyttu verkefnum dagsins í áskoranir sem þú þarft að ljúka til þess að komast á næsta borð
Teiknaðu mynd af því sem þig langar að upplifa
Möguleikarnir eru margir og við hlökkum til að gera leik að daglegri venju og vonum að þú viljir vera memm 😊
Höfundur er sérfræðingur í skapandi hugsun, ráðgjafi, fyrirlesari og stofnandi Bulby sem er hugbúnaður sem auðveldar skapandi hugsun.