Liðin höfðu gert 2-2 jafntefli í Þýskalandi og lengi vel leit út fyrir að Bayern myndi standa uppi sem sigurvegari á Santiago Bernabéu leikvanginum í gær.
Alphonso Davies skoraði nefnilega stórkostlegt mark á 68. mínútu og kom Bayern yfir. Staðan var 1-0 alveg fram á 88. mínútu þegar óvænt hetja steig fram á sjónarsviðið.
Varamaðurinn Joselu hafði verið á vellinum í sjö mínútur þegar hann jafnaði metin eftir sjaldséð mistök Manuels Neuer í marki Bayern.
Joselu var svo aftur á ferðinni tveimur mínútum síðar þegar hann skoraði af stuttu færi. Aðstoðardómari lyfti reyndar flaggi sínu til marks um rangstöðu en eftir skoðun kom í ljós að markið átti að standa.
Úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu fer fram laugardagskvöldið 1. júní.